Gunnar Gunnarsson

Gunnar Gunnarsson myndlistarmaður

Fæddur í Reykjavík 1949 Ég kynntist myndlist snemma, þar sem faðir minn rak Listvinasalinn (Ásmundarsal; nú Listasafn alþýðu) á 6. áratugnum. Fjölskyldan bjó á neðri hæð húsins en sýningarsalur var á efri hæð.

Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á list og listsköpun.

Fyrir tuttugu árum hóf ég að stunda skipulegt myndlistarnám m.a. í Myndlistarskóla Reykjavíkur og Myndlistarskóla Kópavogs. Ennfremur dvaldi ég í Portúgal um nokkurra mánaða skeið, starfaði þar með myndlistarmönnum og tók þátt í sýningum.

Síðan hef ég verið virkur myndlistarmaður.

Um nokkurra ára skeið rak ég sýningarsal, Gunnarssal, á Þernunesi og sýndi þar bæði eigin verk og annarra. Þar voru meðal annars sýndar myndir úr safni foreldra minna, mestmegnis geometrískar afstraktmyndir frá sjötta og sjöunda áratugnum.

Ég hef orðið fyrir miklum áhrifum af Ásmundi Sveinssyni og listamönnum úr „Septemberhópnum“ sem voru tíðir gestir á heimili foreldra minna.

Þrátt fyrir strangflatauppeldið, leitast ég við að mála lífrænar og flæðandi myndir, sem leita út fyrir rammann. Lifræn munúðarfull form vilja ekki hverfa þrátt fyrir einbeittan vilja.

Hið litríka tilfinningalíf listamannahópsins, sem ég kynntist sem ungur, varð síðan að öllum líkindum kveikjan að því að ég las sálfræði og hef starfað sem slíkur. Áhersla mín á því sviði hefur verið frjáls líkamstjáning og hvatning til að örva sköpunargáfuna.

Ég tek þátt í starfi Grósku, félags myndlistarfólks í Garðabæ, og er stjórnarmeðlimur þar. Ég hef tekið þátt i samsýningum utanhúss og haldið fjölda einkasýninga í galleríum, á kaffihúsum og öðrum stöðum, þar sem fólk kemur saman.

Ég mála myndir í olíu, akrýl, geri skúlptúra og hef einnig spreytt mig á grafík og blandaðri tækni.

Ég hef haldið fjölda námskeiða í líkamstjáningu og losun tilfinninga, stundað listmeðferð og unnið með lífefli, Gestalt-tækni , Cranio og Aikido. Ég er virkur í félagi Ellidjarfra MR inga. Ég lít á list sem lífsnauðsynlegan þátt í þroskaferli einstaklings og virkni þjóðfélagsins. Sköpun heldur skaparanum ungum.

https://gunnargunnarsson.weebly.com/